Enginn í strætó?
21.9.2009 | 22:25
Auðvitað þurfa ekki allir að fara á eigin bíl í vinnuna. Það ætti allavega að vera þannig. En hvers vegna fara fáir í strætó? Það er vegna þess að það tekur allt of langan tíma. Ef strætisvagnakerfið væri nothæft þá er öruggt að ég færi á hverjum degi í strætó í vinnuna. En svo er því miður ekki.
Ég bý í íbúðahverfi þar sem ég er 20 sekúndur að ganga út á næstu stoppistöð. Ef ég gerði það og tæki vagninn þá tekur það mig 45 mínútur að komast á vinnustað. Ástæðan er sú að vagninn þræðir fjölda íbúðahverfa á leiðinni og það er bara meira en ég er tilbúinn að standa í. Það tekur mig innan við 15 mínútur á eðlilegum degi (reyndar í kreppunni, en þá eru færri bílar á götunni en í eðlilegu árferði) að aka á eigin bíl til vinnu. Ef litlir vagnar gengju um hvert íbúðahverfi og flyttu fólkið úr því hverfi inn á stöðvar þar sem stærri vagnar taka fólkið og flytja það í hraðferð á tiltekna staði, þá væri þetta leikur einn og allir vagnar fullnýttir. Og það sem meira er, þá myndi bílum á götunum fækka mikið, og gatnakerfið yrði hagkvæmara í rekstri. Þar að auki væru sérstakar akreinar fyrir vagnana, eins og nú er komið á nokkrum leiðum, og því alltaf hægt að gera ráð fyrir góðum ferðatíma. Ég skil ekki hvers vegna ekkert er gert í málinu. Hvað myndi sparast í eldsneyti? Og ferðatíma? Og mengun? Og auðvitað allir vagnar rafvæddir... Áfram nú spekingar, gerið eitthvað í þessu.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslenskar gulrætur
21.9.2009 | 21:52
Ég get ekki setið á mér að nefna það að ég er að borða nú í þessu íslenskar lífrænar gulrætur ræktaðar á Hæðarenda í Grímsnesi. Ég held að það sé kominn tími til að nota eitthvað af orkunni sem enn er óbeisluð til þess framleiða mat, grænmeti og ávexti. Hvað sem álfíklar segja þá er orkunni betur varið í matvælaframleiðslu heldur en framleiðslu á áli. Þá er ég að tala um alvöru framleiðslu sem krefst töluverðs mannafla. Ekki veitir af störfunum. Held að þau gætu orðið fleiri en 500 sem er sá fjöldi sem troða má inn í mökkinn í þokkalegu álveri.
Ég mæli með þessum gulrótum, aldrei borðað jafn góðan mat.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stríðsyfirlýsing fjögurra ráðherra
20.9.2009 | 21:22
Hvernig ætla þau sér að velja þá einstaklinga sem þau vilja aðstoða? Hvernig má það vera að fólk sem farið hefur varlega, greitt háa skatta til þjóðfélagsins áratugum saman, svo jaðrar við þrælahald, og tapað gríðarlega á afglöpum síðustu ríkisstjórna er enn eina ferðina látið bera þungann? Aðrir sem jafnvel hafa farið glannalega njóti aðstoðar, ég nenni ekki að týna til dæmi til rökstuðnings, þau eru næg.
Ég tók lán, reyndar lága upphæð tengda erlendum gjaldmiðlum, ég get alveg sætt mig við 30-40% gengisfall, en gengisfall uppá ríflega 100% er óásættanlegt og mismuninn eiga stjórnvöld að bera ábyrgð á, enda er hrunið á ábyrgð opinberra aðila fyrst og fremst vegna lélegra laga og lítt virkra eftirlitsstofnana.
Ég tek þessari yfirlýsingu ykkar. Það er óásættanlegt fyrir mig að samþykkja ykkar aðferð. Ráðherrar viðskipta og félagsmála hafa fyrr í sumar báðir komið með þessa stríðsyfirlýsingu og ég hreinlega skil ekki alla þessa ráðherra, þá sem þykjast vera málsvarar fólksins í landinu. Í mínum huga eru þeir óhæfir til að stýra landinu, verði þeirra tillaga ofaná, ég get ekki gert að því, kaus ég þó annan stjórnarflokkinn til forystu s.l. vor. Ég mun gera allt sem ég get til þess að þessar aðferðir þeirra verði fordæmdar hvar sem ég get.
Sagt er að reiður maður eigi ekki að skrifa bréf, allavega ekki leyfa neinum öðrum að lesa það. Ég er ekki reiður, mér er bara stórlega misboðið sem heiðarlegum Íslendingi og krefst þess að almennar aðgerðir verði framkvæmdar í stað þessarar svívirðingar, að öðrum kosti eiga ráðherrar sem þessu hafa lýst yfir að segja af sér strax.
Ég veit ekki betur en að hlutverk stjórnvalda sé að halda efnhagskerfi stöðugu, það hefur heldur betur mistekist eins og öllum er kunnugt. Gerið eitthvað í málunum. Til þess voruð þið valin. Nóg er af lausnum, en þið vogið ykkur að bjóða uppá þessa ósvinnu.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)